Menningarstefnan ætti væntanlega að vera leiðarljós fyrir alla lista- og menningarstarfsemi sem borgin styður við, bæði þá sem borgin er með á eigin forsvari og starfsemina sem styrkt er ríflega og/eða reglulega. Í stefnunni er hins vegar sjónum ítrekað sérstaklega beint að þeim stofnunum og starfsemi sem borgin sjálf stendur fyrir og fyrir vikið er erfiðara fyrir aðra að máta sig inn í hana. Þarna verður til skekkja. Til dæmis er vart minnst á sviðslistir, tónleikahaldara eða hátíðir. Það væri hægt að leiðrétta þessa óheppilegu skekkju með því að einfalda markmiðin og gera þau almennari, og ræða nánar t.d. hlutverk einstakra stofnana borgarinnar (bókasafna og Borgarminjasafns svo dæmi séu tekin) í aðgerðum eða sértækum stefnum. Dæmi um birtingamynd þessarar skekkju er þegar þessi klausa (sem getur vart flokkast sem eiginlegt markmið) um Listasafn Reykjavíkur kemur allt í einu í lokin á kafla 5: ,,Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur þar sem tækifæri gefst til að kynnast fjölbreytileika myndlistar í nútíð og fortíð. Öflug miðlun, fræðsla og góð þjónusta vekur áhuga á sköpunarverkum listamanna".
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation